Fjármálaráðherra hótar launafólki

Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.
8.gr. laga um Kjararáð

Ákvörðun Kjararáðs um stórfelldar launahækkanir æðstu embættismanna er staðfesting á þeim miklu hækkunum sem orðið hafa hjá þeim launahæstu á almenna vinnumarkaðinum að undanförnu.
Fyrir nokkru boðaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra miklar breytingar á Kjararáði og vísaði til frumvarps sem þá þegar var til í ráðuneytinu þar að lútandi og nú hefur verið kynnt. Það gerði hann í kjölfar ákvörðunar ráðsins um gríðarlegar hækkanir æðstu embættismanna landsins. Eins og allir vita tekur það meira en dag eða tvo að skrifa slíkt frumvarp og því lítur  út fyrir að Bjarni hafi geymt það niðri í skúffu hjá sér þar til hækkanir embættismannanna höfðu náð í gegn. Hann tók sem sagt meðvitaða ákvörðun um að hleypa hækkunum í gegn og auka launamuninn í landinu áður en hann boðaði breytingar á Kjararáði.
Nú stígur Bjarni fjármálaráðherra fram og hótar launafólki því að ef það gangi ekki að svokölluðu SALEK samkomulagi muni það þurfa að búa áfram við háa vexti og vond kjör. SALEK er í grunninn ætlað að tryggja jafn­ræði í kjaraþróun á grund­velli sam­eig­in­legr­ar launa­stefnu og jöfn­un líf­eyr­is­rétt­inda. Til viðbótar sendir hann skýr skilaboð til sveitarfélaga um niðurskurð í rekstri og þjónustu við almenning í sama tilgangi.
Þetta er óvenju ósvífið af fjármálaráðherra svo ekki sé nú meira sagt. Hann byrjar á að hleypa tugprósenta hækkunum á laun æðstu embættismanna í gegn, jafnvel langt aftur í tímann en setur síðan svipuna á loft gegn almennu launafólki. Nú er það launafólk sem á að bera ábyrgð á vaxtalækkunum en ekki hinir sem mest fengu og mest höfðu fyrir.
​Þetta munu stéttarfélögin í landinu vonandi ekki láta ganga yfir sig þegjandi.