Oddeyrarskóli á Akureyri fékk á dögunum mikla viðurkenningu fyrir framsækið skólastarf á sviði upplýsingatækni. Viðurkenningin fólst í fyrsta lagi í peningastyrk frá sjóðnum Forritarar framtíðar sem ætlaður er til starfsþjálfunar kennara skólans í forritun. Í öðru lagi fær skólinn afhentar 20 borðtölvur frá sjóðnum sem skiptir gríðarlegu máli fyrir skólann, sem líkt og margir aðrir skólar hefur ekki haft fjárhagslega burði til að endurnýja tölvubúnað sinn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Oddeyrarskóli á Akureyri vekur athygli fyrir framsækið og óhefðbundið skólastarf. Um það var m.a. fjallað í apríl (bls. 23) og október (bls. 23) í útgáfum Skólavörðunnar á síðasta ári svo dæmi séu tekin.
Opinber umfjöllun um skólastarf á Íslandi er gjarnan á neikvæðum nótum bæði gagnvart kennurum almennt og skólastarfi. Það er engin ástæða til þess. Gróskumikið og jákvætt starf fer fram á hverjum degi í skólum landsins sem full ástæða er til að vekja athygli á.
Oddeyrarskóli á Akureyri er gott dæmi um það.