Jón Gunnarsson er maður sem stöðugt leitar sátta. Hann hefur nú kynnt sáttaleið sína við stjórn fiskveiða sem felst í megindráttum í því að í stað veiðigjalda í krónum og aurum greiði útgerðir fyrir aflaheimildir með hluta af þeim heimildum, þ.e. hlutfall af úthlutuðum heimildum. Þær aflaheimildir verði síðan að tillögu Jóns „boðnar til ráðstöfunar“ til „að auðvelda kvótalitlum aðilum og nýliðum að ná í aflaheimildir" eins og Jón leggur til að verði.
Þetta eru að ýmsu leyti býsna athyglisverðar vangaveltur hjá Jóni og ekki alveg svo langt frá þeim hugmyndum sem deilt var um á síðasta kjörtímabili og Jón andskotaðist sem mest í og fann þá allt til foráttu.
En hvað hefur breyst? Hvers vegna þessi mikli viðsnúningur hjá Jóni? Er þetta ný stefna sjálfstæðisflokksins við stjórn fiskveiða?
Það er sjaldan þannig að hugsjónir stjórni ferð hjá þingmönnum sjálfstæðisflokksins. Þær eru fyrst og síðast í hagsmunagæslu. Hverjir gætu haft hagsmuni af sáttatillögum Jóns?
Kannski Jón sjálfur?
Hver veit?