Ólafur Haukur Johnson, eigandi og skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar,er alltaf í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Hann er algjörlega blygðunarlaus og gegnheill í hagsmunagæslu sinni og virðist gjörsamlega ófær um að skilja á milli faglegra vinnubragða og gegnsýrðrar spillingar. Hann vill bara einfaldlega að flokkurinn hans sjái um hans mál og ekkert röfl – punktur.
Enda gerði flokkurinn það í mörg ár, alveg þar til vonda vinstristjórnin stöðvaði ruglið. Skólastjóri Hraðbrautar fékk um einn milljarð króna úr ríkissjóði á árunum fyrir Hrun í gegnum kanala flokksins í menntamálaráðuneytinu. Menntamálaráðherrar sjálfstæðisflokksins greiddu skólastjóra Hraðbrautar samkvæmt samningi ákveðna upphæð á hvern nemanda en þá sagðist skólastjórinn bara vera með fleiri nemendur en hann var með og fékk þannig meiri peninga en hann átti að fá! Þannig sveið hann út úr ríkissjóði nærri 200 milljónir króna sem hann hefur víst ekki enn endurgreitt. Sjálfum sér greiddi hann svo arð með umfram peningum en píndi kennara skólans á sama tíma niður í launum. Ráðherrar sjálfstæðisflokksins höfðu ekkert eftirlit með skólanum og gerðu aldrei athugasemdir við nokkurn hlut. Engin greining eða athugun á rekstri skólans fór fram og lítið sem ekkert faglegt mat var lagt á gæði hans eða tilgang yfir höfuð. Samskipti menntamálaráðuneytisins við Hraðbraut undir stjórn sjálfstæðismanna voru pólitísk spilling í sinni tærustu mynd.
Fegurðin í þessu öllu er svo sú að skólastjóri Hraðbrautar og eigandi vill halda leiknum áfram og skilur ekkert í því hvers vegna ráðherrar flokksins fylgja ekki stefnunni og láta skólann fá peninga eins í gamla daga þegar allt var svo gott. Og ráðherrarnir taka bara vel í hugmyndina að sögn eiganda og skólastjóra Hraðbrautar.
Skýrslu Ríkisendurskoðunar um þetta ótrúlega mál má lesa á netinu sem og skýrslu menntamálanefndar Alþingis. Allt er þetta vitnisburður um þann gjörspillta stjórnmálaflokk sem sjálfstæðisflokkurinn er og verður alla tíð en ekki síður hvernig margir flokksmenn sjá flokkinn fyrir sér og hvert hlutverk hans er.