Stórhættuleg stefna hægriflokkanna

Fjármálaráðherra hefur skipað fjármálaráð sem á að meta hvort stjórnvöld fylgi eftir skilyrðum í stefnu stjórnvalda um heildarjöfnuð og skuldir. Skilyrðin eru þessi:
a) Á hverju 5 ára tímabili verði ríki og sveitarfélög að vera rekin í plús.
b) Halli má ekki vera meiri en 2,5% af landsframleiðslu.
c) Skuldir mega ekki vera hærri en 30% af landsframleiðslu.
Stefna hægristjórnarinnar er og hefur verið að lækka skatta og skera niður. Það hefur svo sannarlega verið gert. Tekjur ríkisins hafa af þeim sökum dregist mikið saman og er nú svo komið að afkoma ríkissjóðs versnar ár frá ári. Um þetta er m.a. fjallað í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands þar sem segir m.a. „Ef tekjur af stöðugleikaframlögum eru undanskildar versnar afkoma ríkissjóðs á þessu ári ...“ (bls. 34)
Það er markmið hægriflokkanna að halda áfram að lækka skatta og skera niður í rekstri. Þetta þýðir að til að ná skuldum ríkissjóðs niður fyrir það lágmark sem þeir setja sér ætla þeir að skera meira niður en gert hefur verið. Framundan er því blóðugri niðurskurður í rekstri ríkisins en við höfum nokkru sinni upplifað með óafturkræfum afleiðingum fyrir samfélagið allt.
Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir þetta – með kosningum og koma þessum flokkum út úr stjórnarráðinu til frambúðar.
Stefna þeirra er stórhættuleg.