Mæli með 8. bindinu

„Það vakti alheimsathygli að enginn íslenskur ráðherra sagði af sér strax í kjölfar bankahrunsins. Höfðu þeir þó sinnt embættisskyldum sínum illa og stjórnsýsla á þeirra vegum óneitanlega brugðist hrapallega.“

Hérlendis hafa ekki tíðkast svokallaðar „heiðursmannaafsagnir þar sem ráðherrar hafa tekið afleiðingunum af því að stjórnsýsla á þeirra vegum hefur brugðist á einn eða annan hátt með því að segja af sér“. (Gunnar Helgi Kristinsson)
Í stað heiðursmannareglunnar hafa íslenskir stjórnmálamenn fremur vísað í sakamannaregluna sem kveður á um að þeim eigi að vera sætt uns sekt er sönnuð:
„[S]tjórnmálamenn […] afsaka oftast ávirðingar sínar með því að reglur skorti eða […] að enginn teljist sekur fyrr en sök sannast og vafi komi sökunauti í hag. Hér samsama þeir sig sakamanninum og einblína á lagabókstafinn. Þeir gefa því engan gaum að í stjórnmálum á önnur regla að gilda, sú að vafi sé túlkaður gegn stjórnmálamanninum, því að nálægðin ein við spillingu veldur trúnaðarbresti, en fullur trúnaður er undirstaða fulltrúalýðræðis.“ (Sigurður Líndal)
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 (bls. 181).

Það eru nú rétt 6 ár síðan þessi skýrsla kom út. Það væri kannski ráð að taka þó ekki væri nema einn dag í að ræða hana í þinginu?
Kannski í næstu viku?
Mæli með 8. bindinu.