Enn verður Vigdís Hauksdóttir sér til skammar

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður framsóknarflokksins, hefur sent fyrirspurn til níu ráðuneyta þar sem hún óskar m.a. eftir upplýsingum um fjölda eldri starfsmanna ráðuneytanna. Hún vill fá að vita hve margir starfsmenn þeirra eru á aldursbilinu 60–64 ára, 65–66 ára og 67–69 ára og einnig krefur hún ráðuneytin svara við því hve margir starfsmenn þeirra verði 70 ára á næsta ári.
Þetta er ógnvekjandi fyrirspurn í alla staði. Ekki síst þar sem í hlut á formaður fjárlaganefndar Alþingis sem þessa dagana er, ásamt samstarfsfólki sínu í stjórnarflokkunum, að vinna að gerð fjárlaga næsta árs. Þessi fyrirspurn bendir til þess að verið sé að undirbúa aðgerðir gegn þessum hópi, þ.e. eldra og reynslumiklu starfsfólki í stjórnarráðinu. Þessi fyrirspurn er vitnisburður um hræðileg sjónarmið gagnvart fólki sem komið er yfir miðjan aldur. Fyrirspurnin er næsti bær við persónunjósnir og árásir á launafólk og hótanir í garð þeirra sem eldri eru. Fyrirspurnin ein og sér setur líf þessa hóps í uppnám og skapar óvissu um framtíð þeirra sem í hlut eiga.
Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort ráðherrar svara yfir höfuð svona fyrirspurnum sem mér finnst ósennilegt að allir geri
Vigdís Hauksdóttir hefur enn og aftur orðið sér til skammar með makalausum fyrirspurnum sínum.