Flokkar og framboð eru stofnaðir utan um málefni og pólitísk markmið. Þeir leggja fram stefnu sem kynnt er kjósendum sem síðan taka afstöðu til hennar og þá flokkanna í kosningum. Ef flokkar breyta um stefnu í veigamiklum málum sem þeir hafa áður staðið fyrir má því í raun segja að stofnaður hafi verið nýr flokkur um ný mál með önnur markmið en áður.
Mér skilst að þetta sé það sem margir í forystusveit Samfylkingarinnar vilja gera til að afla flokknum meira fylgis. Þeir telja stefnu flokksins ekki góða og vilja skýra stefnubreytingu og þá væntanlega um leið laða að kjósendur úr annarri átt en áður.
Þetta skil ég ekki. Mér finnst stefna Samfylkingarinnar fín eins og hún er og var þegar ég vann með þeim í ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum. Skýr vinstristefna með félagslegum áherslum, jafnaðarstefna eins og talað var um.
Hvað er athugavert við það?