Strákarnir alltaf að einkavæða

Margir hafa gagnrýnt og það með réttu að Ísland skuli ætla að leggja 2,3 milljarða króna í stofnun Innviðafjárfestingabanka Asíu. Meðal þeirra er Frosti Sigurjónsson, þingmaður framsóknarflokksins og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Gagnrýnin hefur m.a. beinst að sérkjörum starfsmanna bankans auk þess sem þessum milljörðum, sem Íslendingar ætla að setja í hann, er ekki talið vel varið.
Nú liggur fyrir Alþingi all sérstakt lagafrumvarp frá fjármálaráðherra um ráðstöfun eigna úr þrotabúum gömlu bankanna, öðrum en bönkum sem Bankasýsla ríkisins mun annast. Þetta er m.ö.o. lagafrumvarp um hvernig á að koma eignum upp á tugi milljarða í hendur einkaaðila. Einkavæðing upp á tugi milljarða.
Um er að ræða eignir sem kröfuhafar í bankana létu af hendi í tengslum við uppgjör á búunum. Í lagafrumvarpi þessu er lagt til að Seðlabanki Íslands setji á fót sérstakt félag sem hafi það hlutverk að koma þessum eignum í verð. Félagið verður undanþegið stjórnsýslulögum, upplýsingaskyldu, starfsmenn þess bundnir trúnaði og heimilt er að mæla fyrir skaðleysi þeirra sem og stjórnarmanna félagsins. Ríkisendurskoðun á að hafa eftirlit með félaginu en hefur ekkert um það að segja hvernig eignunum verður ráðstafað eða til hverra. Ekki verður betur séð en að Seðlabankinn hafi það eina hlutverk að koma félaginu á koppinn en eftir það hefur bankinn ekkert með það að gera. Ekki er heldur að sjá að þetta félag hafi nokkrum skyldum að gegna gagnvart Alþingi vegna starfsemi sinnar. Því ber ekki að upplýsa Alþingi um ráðstöfun þessara eigna og félagið má það reyndar ekki samkvæmt lagafrumvarpinu. Þetta nýja félag verður nánast eins og eyland í stjórnkerfinu en hefur þó það hlutverk að einkavæða upp á tugi milljarða króna.
Það er athyglisvert að lesa yfir ræður þingmanna við fyrstu umræðu um frumvarpið sem fram fór rétt fyrir jól. En athyglisverðara verður þó að fylgjast með hvernig Alþingi ætlar að afgreiða þetta mál.
Hér er um mjög stórt mál að ræða.