Það vantar einfaldlega vilja til verksins

Það er rétt hjá Kára Stefánssyni að það skiptir engu fokking máli hvar nýr Landspítali verður byggður – þannig lagað. Aðalmálið er að byggja hann.
Það er alþekkt í pólitík að láta deilumál snúast um aukaatriði eða jafnvel um eitthvað allt annað en deiluefnið sjálft. Það á við í þessu tilfelli. Andstæðingar byggingar nýs Landspítala láta líta þannig út að deilt sé um staðsetningu og deiliskipulag. Það er rangt.
Í frumvarpi til laga í tíð vinstristjórnarinnar um byggingu nýs Landspítala er ágætlega farið yfir rökin fyrir því að byggja nýjan spítala, eins og lesa má um í athugasemdum með frumvarpinu. Frumvarpið var samþykkt og gert að lögum með öllum greiddum atkvæðum en án stuðnings þeirra Eyglóar Harðardóttur, Tryggva Þórs Herbertssonar, Jóns Gunnarssonar og Höskuldar Þórhallssonar sem öll sátu hjá. Áfram var unnið með málið og þegar gera þurfti breytingar á lögunum, m.a. vegna fjármögnunar verkefnisins  lögðust framsóknarmenn öðrum fremur gegn málinu. Á lokadögum kjörtímabilsins stoppuðu þeir það svo, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Vigdísar Hauksdóttur fyrir hönd meirihluta fjárlaganefndar og komu að lokum í veg fyrir afgreiðslu þess.
Bygging nýs Landspítala snýst því ekki um deiliskipulag eins og látið er í veðri vaka.
Það vantar einfaldlega pólitískan vilja til að byggja nýjan spítala.