Á síðasta kjörtímabili var gripið til margs konar aðgerða til að sporna við launahækkunum hæst launuðustu opinberra starfsmanna sem oftar en ekki höfðu verið ákveðnar með heldur ógagnsæjum hætti. Sem dæmi um þetta má nefna að lög voru sett á kjararáð (oftar en einu sinni) sem leiddu til þess að laun þingmanna og ráðherra hækkuðu ekki og lög voru sett um hámarkslaun í opinbera geiranum. Stjórnarandstaða þess tíma lagðist auðvitað gegn þessu eins og öllu öðru.
Í nefndaráliti minnihluta efnahags- og skattanefndar um lagafrumvarp til að koma í veg fyrir sjálfvirkar launahækkanir þingmanna og ráðherra héldu stjórnarandstæðingar því fram að með því væri vegið að sjálfstæði dómsvalds í landinu, verið væri að eyðileggja launakerfi ríkisins og málið væri ekkert annað en lýðskrum, svo fátt eitt sé nefnt úr þeirra málflutningi. Þannig var nú andinn í því liði. Einn nefndarmanna minnihlutans gekk síðan svo langt að kvarta opinberlega yfir kjörum sínum og sagðist hafa þurft að greiða með sér sem þingmaður til að halda lifistandard sínum sem efri millistéttarmaður í Hruninu.
Rétt eins og þá var hægt með pólitískum vilja að grípa inn í óæskilega launaþróun þá væri hægt að gera það núna þegar laun hæstu toppa í opinbera geiranum eru að hækka um mörg hundruð þúsund. En til þess er nú enginn pólitískur vilji, þvert á móti er þeim lægst launuðu haldið niðri á meðan taumurinn er gefinn laus hjá toppunum.
Ólíkt því sem áður var.