Óskiljanlegt með öllu

Fréttablaðið hefur valið „samning stjórnvalda við kröfuhafa“ sem viðskipti ársins. Í umsögn blaðsins segir að „ekkert toppi þetta samkomulag“ og að ríkið fái eignir sem „metnar eru á 500 milljónir á núll krónur“. Blaðið valdi svo formenn hægriflokkanna þriðju bestu viðskiptamenn ársins, næst á eftir forstjóra Marel og forstjóra WOW air.
Stundum veit maður ekki hvar á að byrja.
En prófum þetta:

  • Báðir formenn stjórnarflokkanna hafa margsinnis þvertekið fyrir að hafa komið að samkomulagi við kröfuhafa

  • Fjármálaráðherra hefur sagt að það sé ekki hlutverk ríkisins að semja við kröfuhafa

  • Forsætisráðherra hefur sagt að það hafi aldrei staðið til af hálfu stjórnvalda að fara í viðræður við kröfuhafa

  • Deilur hafa staðið um leiðir á milli formanna hægriflokkanna um leiðir sem hafa tafið úrlausn málsins með óheyrilegum kostnaði

  • Hagfræðingar hafa bent á það augljósa að samkomulagið sem raungerðist í sumar hafi legið fyrir allt frá árinu 2012 og tafirnar að ganga frá því megi rekja til deilna milli formanna hægriflokkanna

  • Sérfræðingar hafa bent á að kröfuhafar fái meira út úr samkomulaginu en þeir reiknuðu með

  • Allt að 99,9% kröfuhafa hafa lýst yfir ánægju sinni með samkomulagið

Blaðið virðist því hafa verðlaunað tvo menn sem hafa neitað að hafa samið um nokkurn hlut. Ef einhverjir eiga þessi verðlaun skilið eru það kröfuhafar í þrotabúa gömlu bankanna sem græddu ævintýralega á viðskiptum sínum við Íslendinga.  
Í stuttu máli virðist sama úr hvaða átt er litið á verðlaunaveitingu Fréttablaðsins – hún er óskiljanleg með öllu.