Ég er ekki í hópi pólitískra aðdáenda Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins. Ég les þó stundum pistlana hans sem margir hverjir eru athyglisverðir, sérstaklega þó hin síðari ár.
Þessi pistill hans er þó með þeim undarlegri og til merkis um að honum er að fatast flugið.
Í fyrsta lagi var lögð fram tillaga um afturvirkar bætur til öryrkja og aldraðra við afgreiðslu fjáraukalaga yfirstandandi árs en ekki fjárlaga næsta árs. Staðfesting eða höfnun forsetans á fjárlögum næsta árs breytir því litlu í þeim efnum.
Í öðru lagi var tillaga minnihlutans um bætur til þessa hóps við afgreiðslu fjárlaga felld en sú tillaga sneri að kjarabótum til þess hóps frá og með 1. maí á næsta ári sambærilegum þeim sem aðrir launþegar fá á næsta ári.
Í þriðja lagi er það heldur ódýrt hjá Þorsteini að leggja málin þannig upp að með staðfestingu forsetans á fjárlögum næsta árs megi líta þannig á að ekkert sé að marka orð hans um að við sem þjóð höfum ekki staðið okkur við að verja hag aldraðra og öryrkja.
Í fjórða lagi verður það ekki forseti Íslands sem hvítþvær Bjarna Benediktsson í afstöðu hans til kjara aldraðra og öryrkja með því að vísa til afstöðu forsetans um sama mál. Það kemur í hlut annarra að sjá um þann þvott.
Í fimmta lagi gerir Þorsteinn Pálsson beinlínis ráð fyrir því í grein sinni að forseti Íslands sé einhvers konar gæðastjóri á lagafrumvörp, hafni þeim eða samþykki á víxl eftir því hvernig honum líst á afurðina. Það er glórulaus pæling.
Forsetinn mun að sjálfsögðu staðfesta fjárlög næsta árs. Þó það nú væri. Rétt eins og hann staðfesti fyrri fjárlög hægri stjórnarinnar þó þau fælu í sér afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og 60% hækkun á matarskatti sem hefur komið sér verst fyrir þá sem verst höfðu það fyrir. Sú staðfesting er enginn gæðastimpill á þá lagasetningu og segir ekkert um hvort forsetinn er sammála öllu því sem þar stendur.
Enda kemur honum það hreint ekkert við.