Margir eru eðlilega mjög hugsi yfir stöðunni á Alþingi vegna umræðu um fjárlög næsta árs. Í sjálfu sér er þó um tvö tiltölulega einföld mál að ræða.
Í fyrsta lagi takast stjórn og stjórnarandstæðingar á um málefni Landspítalans. Stjórnarliðar vilja ekki setja nægilegt fjármagn í spítalann svo komast megi hjá hallarekstri á næsta ári. Þeir vilja þess í stað að spítalinn dragi úr þjónustu og sinni sjúklingum ekki eins og þarf að gera. Minnihlutinn á Alþingi vill nýta tækifærið nú þegar betur árar en gert hefur frá Hruni til að tryggja þjóðarspítalanum það fjármagn á fjárlögum sem til þarf.. Meirihlutinn hefur ekki rökstutt sitt mál með öðru en hugmyndafræðilegum hætti. Minnihlutinn á þingi hefur hins vegar meðal annars vísað til talnalegra gagna máli sínu til stuðnings sem og raka færustu manna, líkt og Reynis Arngrímssonar, formanns læknaráðs Landspítalans; Þorbjörns Jónssonar, formanns læknafélagsins; Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, að ógleymdum Kára Stefánssyni. Þetta er ekkert mjög flókið.
Í öðru lagi snýst deilan um að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eigi að fá afturvirka lagfæringu á kjörum sínum líkt og aðrir launþegar. Stuðningsmenn hægriflokkanna leggjast eindregið á móti því á meðan minnihlutinn vill að þessi hópur fái þær bætur skilyrðislaust. Hægristjórnin hefur þjarmað all rækilega að þessum hópum að undanförnu með ýmsum aðgerðum eins og Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, og Björgvin Guðmundsson, formaður kjararáðs eldri borgara hafa bent á í fjölmiðlum að undanförnu. Þetta er heldur ekkert sérstaklega flókið.
Það er vel þess virði fyrir félagslega þenkjandi þingmenn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma þessum málum til betri vegar. Það er hreinlega skylda þeirra enda eru aðrir ekki til þess.
Hægrimenn virðast því miður vera tilbúnir að leggja allt í sölurnar til að koma í veg fyrir úrbætur í þessum málum báðum.
Þess vegna mætast nú stálin stinn á Alþingi.