Jón Gunnarsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, móðgaðist fyrir hönd formanna hægriflokkanna vegna ummæla Bjarkar Guðmundsdóttur um að þeir séu hálfgerðir sveitalubbar. Hann skilur hvorki upp né niður í Björk og spyr hvort hún borgi skatta á Íslandi. Sjálfur skil ég hvorki upp né niður í því hvaða máli það skiptir hvort hún borgi skatta á Íslandi eða ekki í þessu samhengi. Ekki borgar Lars Christensen skatta á Íslandi þó hann leyfi sér að hafa skoðun á því sem hér er að gerast. Hvað þá Richard Thomson, enda þótti hann ekki merkilegur pappír hjá hægrimönnum á sínum tíma. Ég veit ekkert um hvort eða hve mikið Jón Gunnarsson borgar í skatta en þykist vita að sum fyrirtækjanna sem kostuðu hann til þings hafi ekki verið að sligast undan skattgreiðslum í gegnum árin.
Er þingmaðurinn Jón Gunnarsson að ýja að því að vægi fólks í þjóðfélagsumræðunni skuli ráðast af skattgreiðslum þess? Vill hann og samflokksmenn hans takmarka aðkomu fólks að stjórnmálum eftir efnahag og/eða skattgreiðslum?
Það er merkilegt hvað hugmyndir í þessa veru eiga sér góðan hljómgrunn meðal hægrimanna.