Í dag, 9. desember, er alþjóðlegur dagur gegn spillingu.
Í eina tíð var Ísland sagt vera eitt af þrem minnst spilltu löndum veraldar og þá stuðst við viðurkenndar mælingar því til rökstuðnings. Við vitum nú betur. Spilling hér á landi var landlæg og hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið allt eins og lesa má um í viðamikilli skýrslu RNA.
Spilling í stjórnmálum eykst því miður að nýju, það er hafið yfir allan vafa.
Það er spilling þegar þingmenn ganga erinda hagsmunaaðila, jafnt hér innan þings sem utan, eins og mörg dæmi eru um á undanförnum misserum.
Það er merki um spillingu þegar þingmenn breyta leikreglum við úthlutun fjármuna líkt og nú hefur verið gert í tengslum við fjárlög næsta árs að best verður séð í þeim tilgangi einum að geta ráðstafað opinberum fjármunum að eigin vild, án faglegrar umfjöllunar og nauðsynlegs gagnsæis (bls. 10).
Víst er það spilling þegar ráðherrar knýja í gegn byggingarframkvæmdir byggðar á 100 ára gömlum teikningum í þeim tilgangi einum að svala þörf sinni og áhugamálum sínum um gamlar byggingar (bls. 12).
Víst er það spilling þegar stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem þegið hafa háa styrki beita sér sérstaklega í þágu þeirra sem styrkja þá og nota til þess opinbert fé.
Spilling grefur undan lýðræðinu og er stærsti þröskuldurinn fyrir efnahagslegri og félagslegri þróun í heiminum.
Þingmönnum ber að sjá til þess að spilling þrífist ekki á Alþingi.
Það vantar því miður talsvert upp á að svo sé og á því verður þingið og samfélagið allt að taka.