Þvílík niðurlæging!

 Það er margt til í því sem Egill Helgason segir að haftamálið hafi verið of stórt fyrir fjölmiðla til að fjalla um það þó á því séu heiðarlegar undantekningar.
Nú er hins vegar orðið of seint fyrir fjölmiðla að taka málið upp. Því er í raun lokið. Hvorki Alþingi né almenningur eiga nokkra mögulega á aðkomu að því aftur. Framhaldið er alfarið í höndum stjórnarflokkanna.
Í stuttu máli er staðan þessi:
1. Það hefur verið ákveðið að hleypa erlendum vogunarsjóðum með u.þ.b. 530 mia.kr. úr gjaldeyrishöftum.
2. Í staðinn fær íslenska ríkið 8 mia.kr. í peningum og eignir að verðmæti 371 mia.kr. sem þarf að koma í verð.
3. Erlendu vogunarsjóðirnir lána íslenska bankakerfinu 74 mia.kr. á markaðsvöxtum sem þeir fá svo að fara með úr landi, enda vextir undanskildir höftum. Að auki skilja vogunarsjóðirnir eftir tæpa 100 mia.kr. á vaxtaberandi innlánsreikningum í bankakerfinu. Það er því ekki bara nóg með að þeir fari út með gríðarlegar upphæðir heldur ætlum við Íslendingar að borga þeim háa vexti á peninga sem þeir skilja eftir í bankakerfinu!
4. Stórum hluta vandans er frestað til framtíðar með tilheyrandi afleiðingum.​
4. Framundan er stærsta einkavinavæðing Íslandssögunnar ef ekki veraldarsögunnar þegar ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðisflokksins fer að ráðstafa bönkum og eignum sem vogunarsjóðirnir létu þá hafa til ráðstöfunar.
5. Við hin, almenningur, lífeyrissjóðir og fyrirtæki verðum áfram hneppt í fjötra gjaldeyrishafta, vaxta, verðbólgu og verðtryggingar. Fjármálaráðherra staðfestir í viðtali við mbl.is að ekki standi til að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta utan hafta nema u.þ.b. 10% af því sem þeir þurfa að fjárfesta á hverju ári. Nú er ekki lengur talað um að afnema höftin heldur að „lyfta“ þeim eða „losa“ um þau.
6. Vaxtahækkun Seðlabankans í gær var m.a. rökstudd með vísan til þessa máls.

Þvílík niðurlæging!