Í leiðara sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifar í morgun fjallar hann um landsfundi Vinstri grænna og sjálfstæðisflokksins sem haldnir voru um helgina. Hann segir að stóru breytingarnar hafi orðið á landsfundi sjálfstæðisflokksins þar sem m.a. hafi verið samþykktar tillögur um lækkun kosningaaldurs í 16 ár, um aukin réttindi fyrir trans- og intersexfólk, um að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð, um aflagningu á refsistefnu í fíkniefnamálum og aðskilnað ríkis og kirkju. Auk þess hafi ung kona verið kjörin ritari flokksins.
Tillögur sama efnis voru einnig samþykktar á landsfundi Vinstri grænna um helgina eða á fyrri landsfundum hreyfingarinnar. Annað eru gamlar fréttir fyrir okkur sem kusum Sigfús Ólafsson sem ritara Vinstri grænna þá 21 árs gamlan og Katrínu Jakobsdóttur varaformann 27 ára gamla.
Það er rétt hjá ritstjóra Kjarnans að hvað þetta varðar megi segja að stórar breytingar hafi orðið hjá sjálfstæðisflokknum í andstöðu við flokksforystuna. Varðandi öll stærri mál spólar flokkurinn hins vegar enn fastur í gamla skurðinum. Það endurspeglast best í því að landsfundurinn henti út tillögu um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Sjálfstæðisflokkurinn er enn þeirrar skoðunar að flokkurinn eigi fiskinn í sjónum.
Það er svo sem engin frétt.