Vítin eru til að varast þau

Gríðarlegir hagsmunir fylgja uppgjöri gömlu föllnu einkavæddu bankanna. Það kemur best í ljós núna þegar kröfuhafar og eigendur Glitnis bjóða stjórnvöldum þrotabúið í skiptum fyrir peninga. Í sjálfu sér hefur ekkert breyst annað en að kröfuhafar leggja fram eignir í stað peninga eins og þeim hafði áður verið boðið af hálfu stjórnvalda.
Fyrstu viðbrögð fjármálaráðherra voru þau að ríkið myndi selja bankann ef af þessu yrði og það sem fyrst. Annað væri óeðlilegt að hans mati. Engar frekari skýringar á því. Forsætisráðherra tekur að sjálfsögðu undir.
Að fenginni reynslu af því hvernig þessir tveir hægriflokkar hafa ráðstafað eignum okkar til þessa er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur. Mest er þó um vert að þeim takist ekki að möndla með þessi mál bak við luktar dyr. Það á að vera skýr krafa Alþingis og almennings í landinu að öll gögn málsins verði tafarlaust gerð opinber og þingið fái fullan aðgang að málsgögnum. Það er verið að semja um risavaxnar upphæðir og gríðarlega hagsmuni með leynd og fram hjá Alþingi. Það er algjörlega óviðunandi og við eigum ekki að láta bjóða okkur það.
Hvorki sjálfstæðisflokknum né framsóknarflokknum er treystandi til að fara með svo stór mál.​
Vítin eru til að varast þau.