Öflugt starf í skólum landsins

Opinber umræða um skólamál er oft grunn og í upphrópunarstíl. Nýjustu dæmin um það eru „stóru“ byrjendalæsis- og magabolamálin. Því er einnig oft haldið fram að skólastarfið sé fast í gömlu fari og þróist ekki í takt við tímann. Sem betur fer gefur þessi umræða kolranga mynd af skólastarfinu í grunnskólum landsins.
Í nýjustu útgáfu af Skólavörðunni má m.a. lesa viðtal við námsráðgjafa í Oddeyrarskóla á Akureyri sem býður nemendum skólans upp á slökun í skólatímanum (bls. 23). Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því mikla áreiti sem börn verða fyrir á hverjum degi í skólanum með tilheyrandi álagi og oft vanlíðan. Það er því ekki að ástæðulausu að nemendur sækja í að komast í slökun og ró þegar þeim stendur það til boða. Sannarlega gott starf sem unnið er í Oddeyrarskóla á þessu sviði sem og öðrum – eins og má reyndar sjá í eldri útgáfum Skólavörðunnar.
Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með því mikla starfi sem unnið er í skólum landsins og þeirri öru þróun sem þar á sér stað í kennsluháttum og starfi kennara ættu að lesa Skólavörðuna reglulega.
Það er öllum hollt.