Bölvaðir aumingjar ...

„Stærstu kröfuhafar í slitabúin hafa lýst því yfir að þeir vilja ganga að stöðugleikaskilyrðum sem sett hafa verið fram.“ (kynning fjármálaráðuneytisins glæra 57).

Kári Stefánsson segir íslensk stjórnvöld vera bölvaða aumingja í samskiptum við erlenda kröfuhafa. Það má til sanns vegar færa.
Ríkisstjórn hægriflokkanna kynnti með mikilli sýningu áætlun um afnám haftanna og ströng skilyrði sín gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna. Að sögn höfðu kröfuhafar um tvennt að velja; að greiða stöðugleikaframlag eða fá á sig skatt.
Það kom reyndar strax í ljós að þetta var allt tóm þvæla enda búið að semja við kröfuhafa eins og sjá má í kynningu fjármálaráðuneytisins. Að kröfu framsóknarflokksins var hins vegar sett inn hótun um skattlagningu þeim til sáluhjálpar.
Nú liggur fyrir að kröfuhafar í Glitni meta það þannig sjálfir að þeir spari allt að 175 milljörðum króna með því að greiða stöðugleikagjaldið í stað framsóknarskattsins (sjá mynd) og að öllum líkindum annað eins hjá hinum þrotabúunum.
Finna má ágæta grein í Kjarnanum sem útskýrir málið vel.
Þá stendur eftir milljarða króna spurning sem enginn hefur mér vitanlega spurt:
Hvers vegna ákvað ríkisstjórnin að sleppa kröfuhöfum við allt að 175 milljarða króna skatt af þrotabúi Glitnis og kröfuhöfum hinna bankanna við annað eins, fyrst sá möguleiki var fyrir hendi að innheimta það að fullu?
Hvers vegna eru íslensk stjórnvöld bölvaðir aumingjar í samskiptum við kröfuhafa?