Fyrr á þessu ári samþykkti Flokksþing framsóknarflokksins ályktun (bls.3) um að „Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar ...“ Frosti Sigurjónsson hefur síðan ítrekað þessa skoðun framsóknarmanna við ágætar undirtektir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra upplýsti þjóðina um það á Alþingi í dag að hvorki hann né ráðherrar framsóknarflokksins hygðust fylgja stefnu framsóknarflokksins í þessum efnum. Hann undirstrikaði að enginn ágreiningur væri meðal framsóknarmanna í ríkisstjórninni um tillögu hans um að selja a.m.k. 30% hlut í Landsbankanum. Sjálfur sagðist hann vilja selja mun meira af hlut ríkisins í bankanum.
Þetta er athyglisvert í meira lagi.
Rétt fyrir jólin 2012 voru samþykkt lög um meðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum ef til þess kæmi að þeir yrðu seldir. Þar eru sett ýmiss konar skilyrði fyrir sölunni, ekki síst til að koma í veg fyrir að eignarhlutirnir falli í hendur vildarvina hægriflokkanna eins og hefur viljað brenna við. Kannski hefur verið gert samkomulag milli hægriflokkanna um skiptingu á góssinu rétt eins og við síðustu einkavinavæðingu og þess vegna rétt að þeirra mati að hunsa ályktanir flokksþings framsóknarflokksins um annað.
Eygló Harðardóttir ráðherra var ein þeirra sem kom að því að setja þau skilyrði inn áður en lögin voru samþykkt.
Það væri gaman að heyra hennar hlið á málinu sem og annarra framsóknarmanna.