Fyrir nokkuð mörgum árum gerði ég litla óformlega könnun á viðhorfum sjómanna til starfs síns. Niðurstaða könnunarinnar (ef könnun má kalla) var í megindráttum þessi:
1 Fæstir af þeim sem ég ræddi við ætluðu sér í upphafi að verða sjómenn.
2 Áhugasvið flestra var á öðrum sviðum en tengdist starfi þeirra.
3 Flestir voru ánægðir í vinnunni.
Nú hefur verið birt ný og áreiðanleg könnun um líðan og öryggi sjómanna. Næstum allir eru ánægðir í starfi sínu, mjög eða frekar. Ríflega þrír af hverjum fjórum eru ánægðir með að hafa gert sjómennsku að aðalstarfi. Helmingur sjómanna telur að þreyta valdi mestu um að slys verði um borð í skipum. Æfingar eru haldnar mánaðarlega í vel innan við helmingi skipa og í 21% skipa eru aldrei haldnar æfingar. Sláandi munur er á viðhorfi undirmanna og yfirmanna til öryggismála. Á meðan undirmenn telja öryggismálum ábótavant telja yfirmenn þau vera að mestu í lagi.
Margt annað athyglisvert má lesa út úr þessari könnun sem vonandi á eftir að leiða til enn betri líðanar og öryggis fyrir sjómenn.