Mér var skemmt ...

 Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað þegar aurskriður féllu á byggðina í Ólafsfirði árið 1988 og ollu miklu tjóni. Þorsteinn Pálsson, sem þá var forsætisráðherra, gerði sér ferð norður til að líta á aðstæður ásamt Matthíasi Á. Mathiesen samgönguráðherra. Þeir flugu til Akureyrar en sökum þess að Ólafsfjarðarmúli var ófær vegna rigninga og skriðufalla var ég beðinn um að sækja þá félaga sjóleiðina til Dalvíkur á litlum bát og sigla þeim þaðan til Ólafsfjarðar. Ég taldi það vera lítið mál en orðaði það í leiðinni að ég væri vís til að taka smá snúning með Þorstein út Eyjafjörðinn, taka úr honum hrollinn og ræða nokkur mikilvæg pólitísk mál við hann í leiðinni.
Það dugði íhaldinu í Ólafsfirði til að hætta við þetta plan. Þau treystu ekki kommanum fyrir formanninum sínum og ráðherra sem keyrðu þess í stað landleiðina frá Akureyri lengri leiðina og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Þar spígsporaði Þorsteinn síðan um aurinn í allt of stórum stígvélum sem skellt var undir hann við komuna og lagði mat á aðstæður og blandaði geði við innfædda. Sem var bara fínt hjá honum.
Hann fór svo landleiðina til baka.
Mér var skemmt.​