Ómerkilegt lýðskrum

Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýðsfélags Akraness vill „afmá“ (eyða – útrýma) bankastjóra Seðlabanka Íslands vegna undangenginna vaxtahækkana. Þetta er svakalega bjánalegt af Vilhjálmi og um leið dæmigert fyrir lýðskrum sem hann hefur stundum gerst sekur um.
Lögum samkvæmt hefur Seðalabankinn það hlutverk að verja efnahagslegan stöðugleika og sjá til þess að efnahagsleg markmið stjórnvalda nái fram að ganga – svo framarlega sem þau ógni ekki efnahag landsins.
Til að sinna þessum megin verkefnum sínum hefur bankinn yfir að ráða nokkrum stjórntækjum. Eitt þeirra er að hreyfa til vexti. Það er sérstök peningastefnunefnd sem ákveður vexti Seðlabankans og er nefndin sú ekki alltaf sammála í ákvörðunum sínum. Við ákvörðun vaxta í júní sl. vildu tveir nefndarmenn sem dæmi hækka vexti meira en seðlabankastjóri lagði til að gert yrði. Hvað á að gera við svoleiðis fólk? Afmá það?
Seðlabankanum ber skylda til þess lögum samkvæmt að grípa til ráðstafana ef það er mat bankans að stefna stjórnvalda eða eitthvað annað ógni efnahagslegum stöðugleika. Þá skyldu sína er Seðlabankinn nú að uppfylla.
Sætti menn sig ekki við aðgerðir Seðlabankans, þá tveir góðir leikir í stöðunni:
1. Breyta lögum um Seðlabanka Íslands þannig að honum beri hvorki að fylgja efnahagsstefnu stjórnvalda né verja efnahagslegan stöðugleika í landinu.
2. Breyta efnahagsstefnu stjórnvalda.
Standi hugur Vilhjálms Birgissonar og fleiri slíkra, til að reyna að verja efnahagslífið í landinu og kjör launafólks, án þess að afmá, eyða eða útrýma einhverjum eða einhverju, ættu þeir að líta sér nær.
Ómerkilegt lýðskrum gerir engum gagn.