Svo einfalt er nú það

Af og til kemur kemur upp umræða um ósanngirni verðtryggingar. Nú síðast birti kona ein samanburð á reikningum sem sýndu lán hennar hækka þrátt fyrir að hún hafi greitt af því samviskusamlega árum saman. Í þá umræðu vantar reyndar nokkrar breytur, s.s. launaþróun á tímabilinu og verðmæti húsnæðis. En það er þó ekki stóra málið.
Íslendingar hafa búið við efnahagslega óstjórn áratugum saman með reglulegum kollsteypum, verðbólgutoppum og efnahagslegri óvissu. Það er m.a. afleiðing þess að halda úti örgjaldmiðli og „sjálfstæðri“ efnahagsstefnu sem er oft í litlu samhengi við umheiminn. Væri ég fjármagnseigandi sem stæði í að veita lán í slíku umhverfi léti ég mér ekki detta  í hug að lána peningana mín nema gegn því að fá a.m.k. jafnvirði þeirra til baka að lánstíma loknum. Það sama held ég að eigi við um flesta aðra. 
Verðtryggingin er því ekki vandamálið heldur landlæg efnahagsleg óstjórn.
Því miður eru engar vísbendingar um að það sé að breytast í nánustu framtíð. Einfaldlega vegna þess að meirihluti kjósenda vill það ekki.
Kjósendur vilja sín 90% lán, Kárahnjúkana sína, framsóknarflokkinn sinn og leiðréttingu sína. Jafnvel þó það kosti verðbólgu og „hækki“ lánin.
Svo einfalt er nú það.