Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessor varar við augljósum hættumerkjum í efnahags- og viðskiptalífinu sem gætu auðveldlega endað með “hefðbundinni íslenskri kollsteypu.” Undir þetta tekur Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), sem vill að brugðist verði við með því að “opinberum framkvæmdum sé haldið í lágmarki.“
Hvað þýðir það? Hvað er það sem maðurinn vill að verði “haldið í lágmarki”?
Jú. Framkvæmdastjóri SA vill að framkvæmdum í heilbrigðiskerfinu verði haldið í lágmarki, hægt verði á framkvæmdum í vegagerð, viðhaldi á eigum ríkisins verði haldið í lágmarki, framkvæmdum í velferðarkerfinu verði slegið á frest og framkvæmdum á sviði menntamála verði haldið í lágmarki, svo dæmi séu tekin. Hann vill sem sagt að ríkið, almenningur, axli ábyrgð á yfirvofandi kollsteypu en einkageirinn fái að leika lausum hala með allar sínar framkvæmdir þar til yfir lýkur!
Þetta er einmitt það sem gert var í aðdraganda Hrunsins.
Það er eins og menn læri aldrei neitt.
Kannski erum við bara til í slaginn - aftur?