Alþjóðlegt stórfyrirtæki

Fæstir gera sér grein fyrir því hvað útgerðarfélagið Samherji er gríðarlega stórt og framsækið alþjóðlegt fyrirtæki. Fyrirtækið er með beinum eða óbeinum hætti með starfsemi, (útgerð og fiskvinnslu) í fjölmörgum löndum og hefur yfir að ráða flota öflugra og afkastamikilla skipa. Mikil endurnýjun á sér nú stað í þessum flota eins og fram hefur komið í fréttum. Fyrir um ári var togarinn Kirkella sjósettur en skipið er í eigu bresks félags í eigu Samherja og hollensks útgerðarfélags. Undir lok síðasta árs keypti félagi í eigu Samherja sig inn í eitt stærsta sjávarútvegsfélag í Noregi sem er gríðarlega öflugt og hefur yfir miklum heimildum og góðum fiskiskipum að ráða. Í gær var svo undirritaður samningur af hálfu Samherja og félags í þess eigu um smíði tveggja stórra togara Kleven skipasmíðastöðina í Noregi.
Það er athyglisvert að sjá og fylgjast með hvað alþjóðleg starfsemi Samherja hefur haft gríðarleg áhrif á aðrar atvinnugreinar tengdum sjávarútvegi hér á landi. Það á jafnt við um sölu á búnaði, þróun búnaðar og sérhæfingu fyrirtækja og starfsfólks á mörgum sviðum sjávarútvegsins. Eigendur Samherja leggja greinilega mikið upp úr því að nýta íslenskt hugvit og starfsfólk við uppbyggingu fyrirtækisins.
Sjávarútvegurinn er alþjóðleg atvinnugrein, allt frá því að hugmynd að byggingu skips eða fiskvinnsluvers kviknar þar til fiskur er kominn á borð neytenda.
Það er sjaldan rætt þegar sjávarútvegsmál ber á góma hér á landi.

Myndin er af frystitogaranum Kirkella þar sem hann lá við bryggju á Akureyri fyrir stuttu.