Getur það verið?

 Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi í fyrra ítarlegri fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um 80 milljarða millifærslunnar sem kölluð hefur verið „leiðréttingin“. Fjármálaráðherrann kom sér undan að svara fyrirspurninni og sagðist þess í stað ætla að skila þinginu skýrslu um málið þar sem Katrín fengi svör við spurningum sínum. Skýrslunni sagðist ráðherrann ætla að skila í vor. Vorið leið án slíkra tíðinda. Í byrjun maí sagðist ráðherrann skila skýrslunni „í næstu viku“. Sú vika leið og maí reyndar einnig og enn er skýrslan ekki komin til þingsins. Sjálfur beindi ég einnig fyrirspurn til fjármálaráðherra undir lok síðasta árs sem ráðherrann hefur enn ekki svarað þrátt fyrir ítrekanir.
Skýrslan mun hins vegar vera tilbúin í fjármálaráðuneytinu og það fyrir nokkru síðan. Skýringin á því hvers vegna hún hefur ekki enn verið gerð opinber er talin vera sú að niðurstöður hennar séu formanni framsóknarflokksins ekki að skapi. 
Og þar við situr.
Getur það verið?