Hinn eini sanni tónn ...

 Ég get ekki að því gert að mér finnst hugmyndin um einn stóran ríkistónlistarskóla á margan hátt fáránlega sjarmerandi. Hver myndi t.d. ekki vilja vera skólastjóri Tónlistarskóla íslenska ríkisins? Hugmyndin ein og sér fær mig til að söngla með sjálfum mér. Svoleiðis skóli gæti t.d. staðið fyrir árlegri samkeppni um ríkislagið sem flutt yrði við hátíðlega athöfn á sumardeginum fyrsta hvert ár. Skilyrði væri auðvitað að ríkislagið yrði annað tveggja samið í D- eða B- dúr, ríkisflokkunum til heiðurs. Hugsið ykkur hvað það yrði miklu auðveldara að spila og syngja á mannamótum ef aðeins væri til eitt lag og einn texti sem allir kynnu og elskuðu að syngja! Það gæti síðan verið eitt af hlutverkum skólans að finna hinn eina sanna tón, tón sem öllum líkaði og myndi hljóma sem ljúfur fuglasöngur í eyrum hvers einasta mannsbarns – á Íslandi. Allir landsmenn myndu þekkja tóninn ósjálfrátt og ganga sem dáleiddir á hljóðið þegar það bærist frá kjörstöðum á fjögurra ára fresti. Það væri síðan hægt, með framlögum eða skorti á þeim eftir atvikum, að stýra fólki til náms á tiltekin hljóðfæri sem markaðurinn kallaði eftir hverju sinni. Þannig mætti t.d. greiða með ríkistónlistarnámi á langspil í því skyni að fjölga langspilsspilurum eða banjóleikurum á meðan beitt væri fjöldatakmörkunum í nám á önnur og almennari hljóðfæri sem hvort er eða flestir geta gutlað á. Og er nú ekki komið meira en nóg af fiðlu- og píanóleikurum? Nefni ekki ógrátandi gítarleikara. Væri það ekki nema vegna þess að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra Íslands, hefur í alvörunni viðrað hugmynd um Tónlistarskóla ríkisins, þá væri hægt að fabúlera um þetta út í hið óendanlega og hafa gaman af því.
Veruleikinn er stundum lyginni líkastur.