Það er rétt hjá Kristjáni Þór Magnússyni, bæjarstjóra Norðurþings, að bygging kísilvers á Bakka við Húsavík mun styrkja innviði sveitarfélagsins og verða góð innspýting fyrir atvinnulífið á Norðausturlandi. Þetta svæði fór eins og mörg önnur illa út úr því tímabili sem kennt hefur verið við góðæri, störf töpuðust bæði í einka- og opinbera geiranum og fólksfækkun var mikil. Það hefur verið unnið lengi að því að koma þessu verkefni á koppinn og margir komið að því. Í ársbyrjun 2013 var gerður samningur á milli sveitarfélagsins, ríkisins og fyrirtækisins sem um ræðir um ýmis mál tengdum verkefninu og skipti miklu máli við framgang verkefnisins.
Ég hef reynt að styðja við þetta verkefni eftir bestu getu og átt ágætt samstarf við marga sem að því hafa komið á undanförnum árum, heimamenn sem aðra.
Ég fagna því mjög að nú loksins sé það staðfest að byggt verði kísilver á Bakka við Húsavík og óska íbúum á svæðinu til hamingju með það sem og öllum sem að þessu máli hafa komið.
Það var tími til kominn!