Draumaland Viðskiptaráðs

 Viðskiptaráð Íslands hefur uppfært lista sinn yfir skattabreytingar frá Hruni. Samkvæmt honum hafa skattar hækkað 176 sinnum og lækkað 44 sinnum frá því að draumurinn um íslenska efnahagsundrið breyttist í martröð haustið 2008. Nettó hafa skattar því hækkað 132 sinnum frá Hruni samkvæmt Viðskiptaráði.
Stærsta verkefni vinstristjórnarinnar var að bjarga Íslandi frá endanlegu gjaldþroti. Það væri synd að segja að Viðskiptaráð hafi verið jafn hjálplegt í þeirri baráttu eins og það hafði verið í að varða leiðina í Hrunið sjálft.
Í Hruninu kom berlega í ljós hvað skattkerfið í draumalandi Viðskiptaráðs og hægrimanna var lélegt og óburðugt til að takast á við efnahagslega erfiðleika. Til að það yrði nothæft þurfti að gera á því hátt í 200 breytingar. Meginmarkmiðin með þeim breytingum voru að afla ríkissjóði tekna og jafna kjör. Hvort tveggja tókst betur en á horfðist. Íslandi var bjargað frá gjaldþroti og jöfnuður jókst. Breytt skattkerfi færði byrðar Hrunsins ofar í tekjuhópa, upp í þá allra ríkustu, til fjármagnseigenda og fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
Nú er verið að snúa þessu öllu á hvolf aftur af hægriflokkunum tveimur, framsóknar- og sjálfstæðisflokki.
Viðskiptaráði og fylgihnöttum þess væntanlega til mikillar gleði.