Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, spurði að því á Alþingi í dag hvar í heiminum þjóðþing kæmu að vinnudeilum og gerð samninga. Hann vill að við tökum upp sams konar vinnulag við gerð samninga og tíðkast á Norðurlöndunum og talsvert hefur verið fjallað um að undanförnu, t.d. á RÚV. Guðlaugur Þór og fleiri sjálfstæðismenn hafa haldið því fram að til lítils sé að ræða kjaramál í þinginu þar sem snertifletir þings og kjaramála sé enginn.
Skoðum þetta betur.
Kjör fólks ráðast ekki síst af samfélagsgerðinni, t.d. aðgengi að félags-, heilbrigðis- og menntakerfi. Ekki síst felast lífsgæði okkar í lengd vinnutímans og þeim tíma sem við getum varið í annað með fjölskyldum okkar. Allt eru þetta atriði sem Alþingi ræður mestu um, rétt eins og að á þjóðþingum annarra ríkja eru teknar ákvarðanir um sambærileg mál.
Hvað þetta varðar stöndum við öðrum þjóðum langt að baki. Við vinnum of mikið fyrir of lágt kaup. Við eyðum of litlum tíma með fjölskyldum okkar og aðgengi okkar að félags-, mennta- og heilbrigðiskerfinu er alls ekki sambærilegt við það sem gerist, t.d. á Norðurlöndunum.
Ef menn vilja taka upp nýtt vinnulag við gerð kjarasamninga og vísað hefur verið til að undanförnu verðum við um leið að færa íslenskt samfélag til sömu áttar.
Það er hlutverk Alþingis og þingmanna.
Ef þeir vilja.