Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar frá vorinu 2009 segir m.a.: „Stofna skal auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar.“ Í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, sáttahópsins svokallaða, segir um þessi mál: „Að mati meirihluta starfshópsins er sanngjarnt og eðlilegt og í anda jafnræðis að meðhöndla nýtingu allra náttúruauðlinda með eins líkum hætti og unnt er“ - „Hugmyndin með stofnun sjóðsins (auðlindasjóðsins) er að arður af öllum auðlindum í þjóðareign, þ.m.t. sjávarauðlindum, gangi í einn auðlindasjóð/þjóðarsjóð ...“
Um þær hugmyndir að stofna sérstakan auðlindasjóð um tekjur af auðlindum landsins sagði Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, m.a. eftirfarandi á síðasta kjörtímabili: „Auðlindasjóður er nokkuð sem ég hlýt að setja fyrirvara við vegna þess að við erum með sjálfbærar auðlindir. Þeir sem eru ekki með sjálfbærar auðlindir ættu að stofna auðlindasjóð vegna þess að þeir geta bara nýtt þær einu sinni og þurfa að gera það skynsamlega og reyna síðan að ávaxta sjóðinn sinn. En hvers vegna ættum við með okkar sjálfbæru auðlindir að búa til einhvern sérstakan sjóð fyrir þær? Fyrir því hafa ekki verið færð nein rök.“
Nú leggur formaður sjálfstæðisflokksins hins vegar til að stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður.
Það þarf líklega ekki að taka það fram að það hafa ekki orðið formannsskipti í sjálfstæðisflokknum á þessum tíma.
Maðurinn fer bara í hringi.