Ólíkt hafast menn að

Stærstu verkefni vinstristjórnarinnar vorið 2009 voru að endurfjármagna rekstur ríkisins og leggja grunn að nýrra og betra samfélagi en við bjuggum við fram að Hruni. Hallarekstri af áður óþekktri stærð var snúið við á fjórum árum með því að afla nýrra tekna og lækka útgjöld. Nýrra tekna var aflað með því að leggja þyngri byrðar á tekjuhæstu hópana, fyrirtæki og með gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda. Þannig tókst jafnhliða að auka jöfnuð í samfélaginu, halda mikilvægustu stofnunum landsins gangandi, forðast langvarandi atvinnuleysi og bregðast við margs konar  bráðavanda með þessi tvö markmið í huga;endurfjármagna ríkið og leggja grunn að betra og réttlátara samfélagi.
Hvort tveggja tókst betur en flestir þorðu að vona.
Þetta  er óumdeilanlegt.
Stærstu verkefni hægristjórnarinnar sem tók við vorið 2013 eru að vinda ofan af því sem vel tókst til á kjörtímabili vinstristjórnarinnar. Hægristjórnin hefur lagt áherslu á að draga úr tekjuöflun á efnameira fólk og fyrirtæki og auka ójöfnuð í samfélaginu að nýju, samhliða því að setja samfélagið allt meira og minna í uppnám.
Þetta hefur þeim tekist betur en óttast var.
Það er óumdeilanlegt.

Því miður.