Það kemur æ sjaldnar fyrir að ég lesi Viðskiptablaðið enda þykir það ekki sérlega trúverðugur miðill. Þó kíki ég á það á vefnum ef og til þegar enginn sér til. Það kemur og varla fyrir að ég lesi nafnlausa pistla, hvort sem þeir eru í Viðskiptablaðinu eða annarsstaðar. Á þessu eru þó undantekningar eins og gengur og ég læt freistast.
Á vefsíðu Viðskiptablaðsins má nú finna nafnlausann pistil um gjaldeyrishöftin og hugsanlegt afnám þeirra. Þar er svo sem ekkert nýtt að finna. Blaðið hefur hingað til tekið afstöðu með formanni framsóknarflokksins í því máli og skrifað af nokkurri hörku gegn málflutningi formanns sjálfstæðisflokksins. Það er allt á sínum stað í þessum pistli.
En niðurlag pistilsins er býsna merkilegt. Þar ber pistlahöfundur stöðu Íslands í dag á alþjóðavettvangi saman við stöðu Þýskaland eftir síðari heimstyrjöldina. Reyndar gengur Viðskiptablaðið svo langt að bera stjórnarfar þýskra nasista og afleiðingar þess saman við stjórnarfar íslenskra hægrimanna fyrir Hrun og afleiðingar þess fyrir okkur öll.
Orðrétt segir Viðskiptablaðið:
„Sagan getur kennt okkur ýmislegt. Þýskir nasistar myrtu 11 milljónir í helförinni í seinni heimsstyrjöldinni, þar af sex milljónir gyðinga. Andúð alþjóðasamfélagsins var slík að Henry Morgenthau, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, lagði til að þýskur iðnaður yrði að miklu leyti eyðilagður og Þjóðverjum haldið í fátækt um aldur og ævi. Tíu árum síðar urðu Þjóðverjar aðilar að Atlantshafsbandalaginu og tólf árum síðar stofnuðu Þjóðverjar Kola- og stálbandalagið ásamt Frökkum sem nú nefnist Evrópusambandið. Það er varlegt að segja að Þjóðverjar séu langáhrifamesta þjóðin innan Evrópusambandsins. Hafi Þjóðverjum tekist að endurheimta æruna og stöðu sína í alþjóðasamfélaginu eftir allt sem á undan var gengið getur Óðinn ómögulega séð að það muni hafa nokkur áhrif á orðspor Íslands í alþjóðasamfélaginu gæti stjórnvöld jafnræðis milli þeirra sem búsettir eru á Íslandi og erlendra vogunarsjóða. Óðinn telur rétt að þeir, sem velta því fyrir um þessar stundir hvort rétt sé að selja sálu sína fyrir skammtímahagsmuni gegn hagsmunum almennings, hugsi sig vel um.“
Af þessu hef ég lært tvennt í morgun:
Annars vegar að það er ekki allt í lagi á Viðskiptablaðinu og hins vegar að láta það vera a.m.k. um tíma að lesa blaðið og allra helst þó nafnlausu pistlana þeirra.
Lífið er betra án þess.