Stundum skilur maður hvorki upp né niður í samfélagsumræðunni og hvers vegna sum mál virðast ekki ná flugi á meðan önnur fara með himinskautum, að því er virðist í algjöru tilgangsleysi. Dæmi um það er sú ákvörðun Hafnfirðinga að bjóða grunnskólanemum upp á hinsegin fræðslu í skólum bæjarins, fyrsta sveitarfélagið á Hafnarfjarðarsvæðinu til að gera slíkt. Í kjölfarið stofnaði einn ástsælasti tónlistarmaður landsins sérstaka netsíðu til höfuðs hinsegin fræðslu í Hafnarfirði. Hann segist tilbúinn að fara í fangelsi fyrir málstaðinn. Sumum finnst það örugglega góð hugmynd hjá honum að láta loka sig inni.
Ég man ekki eftir sambærilegrri umræðu þegar slík fræðsla var tekin upp í grunnskólum Akureyrar fyrir mörgum árum. Þar virðist vera almenn ánægja með fræðslu um hinsegin fólk sem og annað tengdu kynhneigð fólks, kynfræðslu og forvörnum. Það á jafnt við um börn, kennara og foreldra barna í skólum Akureyrar. Kannski er þetta til marks um mismunandi vægi mála eftir því hvar á landinu þau eru til umræðu?
Sagt er að Gylfi Ægisson hafi samið lagið „Í sól og sumaryl“ í Lystigarðinum á Akureyri undir sírenuvæli á meðan löggan beið eftir því að stinga honum í grjótið. Það var ólíkt fallegra af honum en að vera að atast í hafnfirskum grunnskólabörnum.
Hver veit nema Gylfi ræfillinn sendi frá sér nýja perlu sem samviskufangi á Hólmsheiði?
Það væri þá ekki til einskis inni setið.