Eygló hæðist að starfsfólki fjármálaráðuneytisins

 Að öðrum opinberum starfsmönnum ólöstuðum vann starfsfólk fjármálaráðuneytisins stærstu afrekin á árunum eftir Hrun. Verkefnin sem það fékk í hendur voru nánast óvinnandi og lengi vel tvísýnt um hvernig myndi fara. En þau unnu hvern sigurinn af öðrum, fundu lausnir á vandamálum sem aldrei áður hafði verið tekist á við og vísuðu á leiðir út úr flóknum og vandasömum málum. Þessu fólki verður seint þakkað fyrir sín mikilvægu störf á eftirhrunsárunum.
Þetta er það fólk sem Eygló Harðardóttir, ráðherra framsóknarflokksins, velur að sparka í og hæðast að. Hún kýs að gera lítið úr störfum þessa fólks sem hefur m.a. þá skyldu á herðum að leggja mat á efnahagsleg áhrif lagafrumvarpa ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ef það er eitthvað sem stjórnmálamenn eiga að hafa lært af Hruninu, þá er það að þeir vandi sig í störfum sínum, geri raunhæfar áætlanir og leggi trúverðugt mat á væntanlegar afleiðingar gerða sinna. Þetta vill Eygló ekki gera og það sem verra er – hún krefst þess sama af starfsfólki fjármálaráðuneytisins. Ef Eygló Harðardóttir er ósátt við pólitíska samstarfsmenn sína í sjálfstæðisflokknum, þá á hún að hafa dug í sér til að takast á við þá frekar en að veitast að starfsfólki á skrifstofu opinberra fjármála  í fjármálaráðuneytinu.
En þann kjark virðist hún ekki hafa.