Bara innistæðulaus orð

„Lýðræði er ekki það að tiltekinn flokkur eða hópur fólks fari fram með offorsi og komi vilja  sínum fram án þess að fjöldi annarra í samfélaginu fái rönd við reist.“ (Páll Skúlason. Ríkið og rökvísi stjórnmála).

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar á bloggsíðu sinni pistil undir fyrirsögninni „Einfalt: Meirihlutinn ræður."  Pistilinn skrifar Sigurjón út frá ræðu Bjarna Benediktssonar á Alþingi á dögunum og er fyrirsögnin vísun í ummæli hans. Sigurjón vill meina að Alþingi sé sniðgengið og allar stærri ákvarðanir séu teknar af ríkisstjórninni án aðkomu þingsins. Máli sínu til stuðnings nefnir hann annars vegar kvótafrumvarp sem enn er haldið frá þinginu og hins vegar frægt bréf utanríkisráðherra til ESB. Það er ýmislegt til í þessu hjá Sigurjóni.
Það eru þó lokaorð pistilsins sem vöktu athygli mína umfram annað en þar skrifar Sigurjón: „Oft hefur verið talað um foringjaræði og það með réttu. Núverandi ríkisstjórn er alls ekki eftirbátur þeirra sem á undan fóru.“
Engin dæmi eru nefnd þessu til stuðnings. Líklega vegna þess að erfitt er að finna samanburð við þau ósköp sem við búum við í dag hvað þetta varðar. Í svipinn man ég ekki eftir neinum sambærilegum dæmum frá kjörtímabili ríkisstjórnar vinstriflokkanna. Ég fullyrði hins vegar að Alþingi hafði aldrei áður verið jafn virkt og valdamikið og á síðasta kjörtímabili. Það var þingið sem tók allar stóru ákvarðanirnar eins og vera ber. Eða eru deilurnar um stjórn fiskveiða, veiðigjöld, ESB- umsóknina og margt, margt fleira öllum gleymdar?
Það er eins og mörgum þyki það andlega léttara að vísa til fortíðar þegar hægrimennirnir fara yfir strikið.
En það eru bara innistæðulaus orð – nema rökin fylgi.