Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis telur að „...búa þurfi ráðherrum betri aðstöðu til að rækja störf sín, reynda aðstoðarmenn sem gætu veitt hlutlausa ráðgjöf í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.“ Hann bendir sömuleiðis á hið augljósa að það fólk sem gegnir ráðherrastöðum hafi hvorki „verulega reynslu af þingstörfum“ og „oft á tíðum ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu”. Reynsla þeirra sé fyrst og fremst af störfum fyrir flokkinn sinn. Þetta kom fram í ágætu viðtali við Tryggva á RÚV fyrir ekki löngu. Allt er þetta rétt hjá Tryggva, því miður en hefur ekki fengið verðskuldaða umfjöllun í samfélaginu – aftur því miður.
Ríkisstjórn hægriflokkanna og þinglið hennar er einstaklega illa skipuð að þessu leyti. Ákvarðanir þeirra, framganga og tillögugerð við lausn á stórum sem smáum málum einkennist af reynsluleysi og hugmyndafátækt. Þessi 38 manna hópur hefur litlu komið í verk á þeim tæpum tveim árum sem hann hefur stjórnað landinu. Það litla sem frá þeim kemur veldur oftar en ekki miklum deilum og uppnámi í samfélaginu frekar en leiða til lausna. Alþingi hefur aldrei áður verið svo illa mannað stjórnarliðum og aldrei áður hefur verið svo illa skipað í ríkisstjórn sem nú.
Það er ekkert á þessa áhöfn að treysta.