Þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa lengi haft áhuga á að takmarka eða koma í veg fyrir að almenningur fái upplýsingar um skattframtöl einstaklinga og fyrirtækja. Með því vilja þeir m.a. leyna því hvað margir umbjóðendur þeirra úr hópi efnafólks leggja hlutfallslega lítið af mörkum til samfélagsins, jafnframt vilja þeir með því veikja eftirlit og aðhald með skattgreiðslum. Sumir úr röðum efnafólks hafa reyndar varað við því að upplýsingar um hagi þeirra að þessu leytinu til gætu aukið glæpatíðni í landinu.
Fram til þessa hafa þingmenn sjálfstæðisflokksins verið einangraðir í þessari afstöðu sinni og fáir, ef nokkrir utan veggja Valhallar, tekið undir með þeim. Nú hefur það hins vegar breyst. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram sambærilegt mál þar sem hann leggur til „... að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af í þeirri mynd sem hún er nú.“
Það má því búast við að það styttist í að sjálfstæðismenn fái draum sinn um leynd yfir skattalegum upplýsingum uppfylltan.