Tvær leiðir færar

 Fjármálaráðherra sendi fyrir helgina frá sér greinargerð um framgang losunar fjármagnshaftanna  sem sett voru á haustið 2008.
Þetta er nokkuð athyglisverð greinargerð.
Í fyrsta lagi segir í greinargerðinni að breytingar á skilmálum skuldabréfa milli Landsbanka Íslands og þrotabús gamla bankans hafi verið mikilvægur áfangi í framgangi áætlunar um afnám haftanna. Eins og allir vita var mikill ágreiningur um þetta mál á milli stjórnarflokkanna, enda mál nátengt framsóknarflokknum. Það endaði hins vegar með því að framsóknarflokkurinn var snúinn niður. Skynsemin bar heimskuna ofurliði.
Í öðru lagi segir í greinargerð fjármálaráðherra að í reynd séu aðeins tvær leiðir til við að taka á þeim vanda sem Ísland stendur frammi  fyrir að þessu leyti. Í fyrsta lagi að semja og í öðru lagi að semja. Hvað fyrra atriðið varðar snýst það um að semja um afslátt af innlendum eignum erlendra aðila hér á landi og hitt atriðið snýst um að semja um að erlendir aðilar fjárfesti til lengri tíma hér á landi í stað þess að fara með góssið úr landi.
Þetta þykir kannski rýr uppskera hjá fjármálaráðherra eftir tveggja ára yfirlegu og fjögurra ára látlausa umfjöllun þar á undan. Þetta er þó það sem hefur blasað við þeim sem hafa fjallað um málið af yfirvegun og skynsemi.
Kannski fer fjármálaráðherra að komast í þann hóp?