Orð til umhugsunar

Í nýlegri bók sinni, Ríkið og rökvísi stjórnmála fjallar Páll Skúlason, heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, m.a. um lýðræðið og að fólki hafi á síðari tímum orðið tíðrætt um að lýðræðið eigi að vera einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Páll segist geta fallist á þetta með tveim skilyrðum þó. Það fyrra er að lýðræðið sé alls ekki nægilegt eitt og sér fyrir skynsamlegum stjórnmálum og hið síðara að lýðræðið verði að fela í sér ákveðnar aðferðir og reglur sem menn skilji og kunni að beita rétt.

Um síðara skilyrðið, þ.e.  að lýðræðið feli í sér reglur og aðferðir sem menn verði að skilja og kunna að beita rétt, segir Páll Skúlason:

„Það er eitt almennt skilyrði fyrir því að hægt sé að tala með réttu um lýðræði; það er að lýðurinn hafi leiðir til að ráða ráðum sínum. Lýðræði er ekki það að tiltekinn flokkur eða hópur fólks fari fram með offorsi og komi vilja  sínum fram án þess að fjöldi annarra í samfélaginu fái rönd við reist. Lýðræði er ekki heldur það að lýðurinn – fólkið, almenningur, í tilteknu samfélagi – láti einhvern leiðtoga telja sér trú um að hann sé holdgervingur þeirra eigin vilja. Stjórnmálabarátta síðari tíma virðist stundum ekki felast í öðru en lýðskrumi og samkeppni flokksleiðtoga um að sannfæra kjósendur með áróðri og auglýsunum um að þeir eða flokkar þeirra muni fullnægja hvötum þeirra og þörfum betur en aðrir.“

 Svo mörg voru þau orð.