Fátt er svo með öllu illt ...

 Útspil ríkisstjórnar hægriflokkanna í ESB- málinu er líklegt til að hafa talsverðar pólitískar afleiðingar til skemmri tíma og lengri.
Í fyrsta lagi er málið nú þegar orðið svo erfitt fyrir stjórnarflokkana að telja verður meiri líkur en minni á  að það verði stjórninni að falli.
Í öðru lagi er næstum öruggt að kvarnast mun mjög úr sjálfstæðisflokknum og líklegra en áður að óánægðir sjálfstæðismenn gangi úr flokknum og stofni annan.
Í þriðja lagi hefur málið þegar orðið til að þjappa stjórnarandstöðunni betur saman en nokkru sinni áður. Stjórnarandstaðan hefur staðið saman sem ein heild gegn atlögu hægrimanna að þingræðinu og talað einum rómi gegn stjórnarflokkunum. Það hefur farið þeim vel. Það er því líklegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem unnu margir hverjir ansi þétt saman á síðasta kjörtímabili, átti sig enn betur en áður á því að það er fleira sem sameinar þá en sundrar.
Það er því alls ekki ólíklegt að útafkeyrsla hægriflokkanna í ESB- málinu verði á endanum til góðs fyrir íslensk stjórnmál til framtíðar litið.