Af því hann ræður engu um það!

 Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, virðist undrandi á því að hafa ekki verið spurður hvort hann vildi heimila birtingu á símtali sem hann átti við Geir H Haarde um lánveitingu til Kaupþings þann 6. október 2008.
Ástæðan er einföld: Hann hefur ekkert um það að segja og hefur enga lögsögu um málið. Símtalið var og er á forræði Seðlabankans og Geirs H Haarde en ekki fyrrverandi bankastjóra. Bankastjórinn fyrrverandi átti þetta símtal sem bankastjóri og starfsmaður bankans. Ekki var um að ræða persónulegt einkasamtal hans við forsætisráðherra þó hann kunni að líta svo á sjálfur. Það hefði verið í hæsta máta óeðlilegt að spyrja fyrrverandi starfsmann Seðlabankans leyfis til að birta símtalið. Opinberir starfsmenn, embættismenn, ráðherrar og bankastjórar eiga ekki stofnanir ríkisins og ráða því litlu um það hvernig farið er með gögn sem kunna að verða til á starfstíma þeirra.
Það gildir líka um Davíð Oddsson.
Mynd: Pressphoto.biz