Sigurður Ingi Jóhannsson byrjaði illa sem ráðherra. Gerðir hans voru m.a.ástæða fyrir fyrstu mótmælum gegn ríkisstjórninni aðeins örfáum dögum eftir að hún var mynduð vorið 2013. 35 þúsund Íslendinga mótmæltu síðan með undirskrift sinni lækkun veiðigjalda sem Sigurður Ingi stóð fyrir síðar það sama sumar. Fleiri aðgerðir og ekki síst ýmis furðuleg ummæli urðu til þess að hann fékk á sig yfirbragð klaufalegs, pólitísks tudda.
En það er mikið vanmat og vanþekking á ráðherranum.
Það hefur lítið farið fyrir Sigurði Inga undanfarna mánuði. Hann hefur ekki blandað sér í umdeild mál samráðherra sinna í framsóknarflokknum og komið sér í var í skjóli látlausra skandala formanns flokksins. Hann þykir hafa breytt um stíl í samskiptum sínum við flokksmenn sem og pólitíska andstæðinga á þingi og leggur sig fram um að öðlast traust og trúnað þvert á flokka, öfugt við formann flokksins. Það er til marks um klókindi hans að gera ágreining við sjálfstæðsflokkinn um frumvarp um stjórn fiskveiða, sér í lagi nokkur mikilvæg atriði sem Sigurður veit að hann gæti jafnvel fengið meirihlutastuðning við í þinginu án sjálfstæðisflokksins. Er þá helst að nefna eignaréttarákvæði og innköllun heimilda eftir tiltekinn aðlögunartíma. Með þessu hefur Sigurður Ingi náð að skapa sér sterka stöðu innan flokksins og er líklegri en aðrir til að auka fylgi hans með málatilbúnaði sem framsóknarflokkurinn getur verið stoltur af.
Sigurður Ingi virðist vera búinn að átta sig á því að formaður framsóknarflokksins verði ekki langlífur í því embætti og hefur komið sér vel fyrir á hliðarlínunni þar sem hann bíður rólegur færis.
Það gæti komið fyrr en margir ætla.