Brestir

Það má vel greina pirring og þreytu hjá þingmönnum sjálfstæðisflokksins í garð framsóknarmanna, ekki síst af hálfu formannsins. Aðallega þó vegna framgöngu formanns framsóknarflokksins á ýmsum sviðum og viðbragða hans við mörgum málum. Skemmst er að minnast þess er hann hvarf óvænt af vettvangi á háannatíma þingsins fyrir jól án nokkurs fyrirvara. Þar á eftir sinnti hann ekki hlutverki sínu sem forystumaður í ríkisstjórn með því að taka ekki þátt í göngu gegn ofbeldi í París sem allir aðrir leiðtogar í Evrópu gerðu. Síðan sakar hann fjölda opinberra starfsmanna og fleiri innlenda sem erlenda aðila um stórfelldan glæp gegn þjóðinni. Viðbrögð hans við gagnrýni sem að honum beindist vegna þessa voru svo hvorki honum né stjórnvöldum til sóma.
Mörgum sjálfstæðismönnum finnst lítið fara fyrir góðum málum sem þeir telja sig hafa náð fram á þingi. Aðallega vegna þess að makalaust og óútreiknanleg framganga forystumanna framsóknarflokksins skyggir á allt annað.
Það má heyra úr röðum sjálfstæðismanna að eitt sé það að vera ósammála í pólitík, annað að láta svona vitleysu yfir sig ganga æ ofan í æ.
Það eru komnir brestir í samstarfið.