Einar K. Guðfinnsson ákvað að gera blaðagrein fyrrum forstjóra BM Vallár að þingmáli í ársbyrjun 2014. Það gerði hann í krafti embættis síns sem forseti Alþingis og upp á sitt eindæmi. Þessi ákvörðun er fordæmalaus. Með henni hleypti forseti Alþingis lífi í ásakanir um að opinberar stofnanir í samstarfi við innlend og erlend einkafyrirtæki hafi gert samsæri gegn íslenskum hagsmunum. Forsætisráðherra tók svo hressilega undir þær ásakanir á dögunum og gerði þær að sínum. Það gerði formaður sjálfstæðisflokksins hins vegar ekki og telur þvert á móti að engin innistæða sé fyrir því að bera slíkar sakir á fólk.
Brynjar Níelsson hefur fyrir hönd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins farið með þetta mál, sem er í rauninni ekki eiginlegt þingmál heldur prívatmál forseta þingsins. Nú þegar komið er að því að skila málinu aftur í hendur forseta Alþingis stendur Brynjar frammi fyrir því að þurfa að skera alla úr snörunni. Hann þarf að afgreiða málið án þess að niðurlægja forseta Alþingis meira en orðið er. Hann þarf að taka tillit til stórkarlalegra yfirlýsinga forsætisráðherra og hann þarf að sjá til þess að formaður sjálfstæðisflokksins komist sæmilega frá þessu og þá í þeim anda sem hann hefur talað.
Það er því líklegt að niðurstaða Brynjars Níelssonar verði þannig að enginn glæpur hafi verið framinn, ekkert samsæri og engin ástæða fyrir forseta Alþingis að fara lengra með málið. Það sé hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að skoða einstaka þætti þess með það í huga að allir átti sig á því hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna í kjölfar Hrunsins haustið 2008.
Brynjar mun ekki láta framsóknarmenn segja sér fyrir verkum í þessu frekar en öðru.
Til þess hefur hann of mikið common sense.