Dauðrotað samsæri

Stóra samsæriskenning þeirra Víglundar Þorsteinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar snýst um að alþjóðlegt samsæri hafi verið myndað gegn íslenskum hagsmunum við stofnun nýju bankanna eftir Hrun. Að því samsæri stóðu að mati þeirra félaga allar helstu stofnanir íslenska ríkisins á sviði efnahagsmála auk innlendra og erlendra lögfræðistofa og endurskoðunarskrifstofa. Ávinningur þessara aðila af samsærinu er óljós og óútskýrður.
Nú hefur þessi samsæriskenning verið dauðrotuð. Allir, sem til málsins þekkja og hafa kynnt sér það, sjá hvers konar dæmalaus þvæla þessi málatilbúnaður er. Um það vitna viðtöl og greinar sem skrifaðar hafa verið um samsærið á síðustu þrem dögum, t.d. hér, hér og hér. Fjármálaráðherra sá svo tilefni til þess í gær að setja ofan í við forsætisráðherra vegna ummæla þess síðarnefnda sem gerði samsæriskenninguna að sinni.
Eftir standa hörðustu talsmenn samsæriskenningarinnar úr röðum auðmanna og ákafir stuðningsmenn samsærisins berstrípaðir frammi fyrir alþjóð með forsætisráðherrann í broddi fylkingar.