Bjarna er ekki treyst

Ágreiningur á milli formanna stjórnarflokkanna um leiðir við afnám haftanna verður augljósari með hverjum deginum sem líður. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafa unnið nokkuð vel saman um stór mál, oftast nær í andstöðu við formann framsóknarflokksins. Dæmi um það sáum við varðandi lengingu á skuldabréfi Landsbankans undir lok síðasta árs. Nú hefur það gerst að formaður framsóknarflokksins vék fulltrúa Seðlabankans úr ráðgjafahópi um afnám haftanna og setti þar í staðinn nánasta ráðgjafa sinn og vin og gerði að varaformanni hópsins. Varaformennirnir eru því tveir. Ljóst er að forsætisráðherra hefur krafist þessara breytinga til að styrkja stöðu sína gagnvart formanni sjálfstæðisflokksins í undirbúningi afnáms gjaldeyrishaftanna. Nýi varaformaðurinn er því nokkurs konar yfirfrakki á fjármálaráðherra og honum gefið aukið vægi í nefndinni í þeim tilgangi að treysta hlut formanns framsóknarflokksins.
Bjarna er ekki treyst.